Smátexti: Mikilvægasti hluti hönnunar sem næstum enginn hannar


Smátexti, ólíkt titli þessa greinar, er stuttur texti í viðmóti sem leiðbeinir notanda og segir honum hvað hann skuli gera. Dæmi um slíkan texta er „áfram“ eða „ganga frá pöntun“ í vefverslun, smákökutilkynningar eða lýsingar á vöruflokkum. Smátexti er einn af þessum öngum hönnunar sem fáir hugsa um þangað til það kemur að því að hanna hann. Þannig eru mikilvægar ákvarðanir oft teknar á síðustu metrum verkefnis þegar allt kapp er lagt á að klára sem fyrst eða þá að hönnuður býr til vírlíkan með grunnhugmynd að texta sem endar síðan í lokahönnun. 


Smátexti á þó skilið frekari áherslu. Texti er bókstaflega helsta aðferð okkar til að miðla upplýsingum. Bara þó að textinn sé stuttur þýðir ekki að hann sé ekki mikilvægur. Þvert á móti er það list að koma upplýsingum til skila með sem fæstum orðum og ekki góðs viti þegar slík list á að eiga sér stað á stuttum tíma á lokapunkti hönnunar.

Smátexti hefur raunveruleg áhrif á hegðun fólks. Í þessari tilraun sést meira en 10% munur á CTR út frá mismunandi texta í takka sem færir notandann á næstu síðu.

Smátexti hefur nefnilega gríðarleg áhrif á upplifun af vefsíðu og getur ráðið úrslitum um sölu og aðgerðir. Hver hefur ekki verið kominn langt í kaupferli og séð skilaboð sem rugluðu mann í ríminu? Ruglingur verður að hiki, hik verður að vafa, vafinn veldur því að ekkert verður af kaupunum.

Smátexti verður að uppfylla nokkur skilyrði til að ná sem bestum árangri. Hann þarf að vera skrifaður með notandann í huga því notandinn er sá sem mun nota textann. Þess vegna getur verið mikilvægt að negla niður hlutverk smátextans í upphafi verkefnis því að í því ferli er upplifun notandans mótuð ásamt efni vefsíðunnar.

Það eru þó fjórir eiginleikar sem einkenna góðan smátexta.

Stuttur

Smátexti skal vera, eins og nafnið gefur til kynna, smár. Einfaldleiki er lykillinn og notandinn ætti varla að taka eftir textanum, svo fljótlesinn á hann að vera. Besti smátextinn er einmitt þeim krafti gæddur að notandinn rennir yfir síðuna og veit nákvæmlega hvert hlutverk hennar er, hvað hann á að gera næst og hvernig hann gerir það, án þess að „lesa“ nokkurn hlut.


Skýr

Smátexti verður að vera skýr enda er enginn tími eða staður til að útskýra frekar hvað við er átt. Smátextinn útskýrir eigin tilveru, næstu aðgerðir og tilgang síðunnar á einu augnabliki. Ef notandinn þarf að lesa texta tvisvar eða oftar til að skilja hvað þar stendur er smátextinn ekki að sinna hlutverki sínu.


Hvetja til aðgerðar

Smátexti ætti að hvetja notandann áfram á einn eða annan hátt. Hann á að segja honum hvernig hann notar síðuna, hvaða aðgerðir eru í boði og hvað hann fær út úr þeim aðgerðum. Allt þetta hvetur til aðgerða sem er einmitt það sem við viljum fá frá notandanum.


eHarmony er stefnumótasíða og leikur sér að ástæðu notandans og markmiðum áður en hún hvetur hann til að taka næstu skref.


Samkvæmur vörumerkinu

Smátexti er mikilvægasta tjáningarform vörumerkisins. Myndir, icon, litaval og fígúrur skipta miklu máli í stóra samhenginu en þegar notandinn les texta á vefsíðu er vefsíðan að tala til þeirra. Þetta er tækifærið til að skapa og móta persónuleika vörumerkisins. Hérna er hægt að skrifa texta eins og að vörumerkið sé raunveruleg persóna. Þess vegna er svo mikilvægt að textinn sé í samræmi við vörumerkið og skapi þannig rétta upplifun.

Allar vefsíður sem þjónusta mikinn fjölda af notendum þurfa að huga vel að smátexta og smátextinn þarf að vera í sífelldri þróun. Það er aldrei nóg að sætta sig við að textinn virki, þú átt alltaf að vera að leita að betri texta. 

Þess vegna er svo mikilvægt að prófa. Hvort er betra að segja „Kaupa núna“ eða „Setja í körfu“? Það er erfitt að segja, látum notandann ráða. Setjum upp tilraun þar sem 1.000 notendur sjá sitthvorn takkann. Hvor takkinn fær fleiri smelli? 

Það eru til tól sem gera svona tilraunir einfaldar og það er engin afsökun fyrir því að vera ekki að hugsa um smátextann. Prófaðu allt, alltaf og láttu gögnin leiðbeina þér.

Smátexti, ólíkt titli þessa greinar, er stuttur texti í viðmóti sem leiðbeinir notanda og segir honum hvað hann skuli gera. Dæmi um slíkan texta er „áfram“ eða „ganga frá pöntun“ í vefverslun, smákökutilkynningar eða lýsingar á vöruflokkum. Smátexti er einn af þessum öngum hönnunar sem fáir hugsa um þangað til það kemur að því að hanna hann. Þannig eru mikilvægar ákvarðanir oft teknar á síðustu metrum verkefnis þegar allt kapp er lagt á að klára sem fyrst eða þá að hönnuður býr til vírlíkan með grunnhugmynd að texta sem endar síðan í lokahönnun. 

Vilt þú kynna þér hvernig við getum bætt vefsíðuna þína með skilvirkari smátexta?

Hafa samband
Go to link

Viltu lesa meira?